Innflutningur á sementi í stað framleiðslu

18.04.2012

Viðtal við Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar í Morgunblaðinu 18 april 2012.
Síðustu tonnin voru framleidd í Sementsverksmiðjunni á Akranesi í febrúarmánuði. Að sinni að minnsta kosti. Framundan er innflutningur á sementi frá Noregi hjá þessu gamalgróna framleiðslufyrirtæki og er fyrsta skipið væntanlegt með sement til Akraness og Akureyrar í lok næsta mánaðar. Nú er unnið af krafti að ýmsum breytingum áður en innflutningur getur hafist.
 
Sala á sementi hefur hrunið frá því í þenslunni í byrjun aldarinnar. Síðasta ár var það lélegasta í sögu verksmiðjunnar á Akranesi og nam salan þá aðeins um 32 þúsund tonnum. Það er um fjórðungur afkastagetunnar og tæpur þriðjungur af sementsölunni í eðlilegu árferði. Í ár gerir fyrirtækið sér vonir um að salan nálgist 40 þúsund tonn. Sementssala fyrirtækisins 2007 nam tæplega 153 þúsund tonnum, en auk margvíslegra annarra verkefna voru framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun þá í fullum gangi. Mest var salan frá verksmiðjunni 1975 eða tæp 160 þúsund tonn þegar mikil uppbygging var á Þjórsársvæðinu.
 
Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, segir að fyrirtækið hafi á liðnum árum aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Stöðugildin séu núna tólf, en þegar hann hóf störf hjá SR fyrir rúmum 30 árum voru starfsmennirnir 190. „Sjálfvirkni jókst með hverju ári og við höfum farið í gegnum margar hagræðingar,“ segir Gunnar. „Síðan vorum við meðvituð um að innflutningur gæti hafist í samkeppni við okkur og undirbjuggum okkur til að mæta þeim aðstæðum.“ Að því kom að Aalborg Portland hóf fyrir nokkrum árum innflutning á sementi frá Danmörku. Gunnar áætlar að hlutdeild Sementsverksmiðjunnar sé um 55% af markaðnum, en meðan deyfð ríki á markaðnum þurfi ekki nema eitt stórt verkefni til að breyta hlutföllum: verulega.
 
Meirihlutaeigendur fyrirtækisins eru Norcem AS í Noregi og Björgun í Reykjavík. Gunnar segir að ákvörðun stjórnar byggist á því að stöðva framleiðslu tímabundið í tvö ár vegna markaðsaðstæðna og endurmeta stöðuna að þeim tíma liðnum. Þá verði metið hvort innflutningi verður haldið áfram eða framleiðsla hafin að nýju.
 
Meðal breytinga sem unnið er að hjá fyrirtækinu er að setja upp löndunarlögn og afloftunarbúnað á Akranesi og var samið við Vélsmiðjuna Hamar um þessi verkefni. Á Akureyri verður einnig settur upp afloftunarbnúnaðar. Gunnar áætlar að þessar fjárfestingar kosti um 60 milljónir króna Þá er gert ráð fyrir dýpkun í höfninni á Akranesi og vonast Gunnar til að farið verði í það verk á síðari hluta ársins. Erlend skip á vegum Norcem flytja sementið til landsins og miðað við 40 þúsund tonna sölu reiknar Gunnar með tíu skipum með sement á ári.
 
„Við ætlum okkur að flytja inn gæðasement, sem hentar vel íslenskum aðstæðum,“ segir Gunnar. „Við ætlum að aðlaga það íslenskum markaði og aðstæðum, t.d ef menn vilja fá í það járblendiryk eða hafa aðrar sérstakar óskir. Nýverið héldum við 80 manna kynningu þar sem við fengum jákvæð viðbrögð og það er hugur í okkur að mæta nýrri stöðu og taka þátt í þessu af fullum krafti,“ segir Gunnar.
 
 
Sementsverksmiðjan var reist á Akranesi á árunum 1956 - 1958 og tók til starfa síðla árs 1958. Sementið var að mestu unnið úr íslensku hráefni. Undirstaðan var skeljasandur úr Faxaflóa og líparít sem var unnið úr námu í Hvalfirði. Eina innflutta hráefnið var gifs, sem var um 5% af sementinu. Kolum var síðustu 30 ár brennt í ofni verksmiðjunnar.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar