Viðtal við framkvæmdastjóra

17.10.2018

Viðtal við framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem gefið var út af Viðskiptablaðinu í samstarfi við Kelduna 27. september síðastliðinn.

Sementsverksmiðjan skilaði tæplega 350 milljóna hagnaði fyrir tekjuskatt í fyrra sem er 33% uppsveifla frá árinu áður. Hverju þakkarðu þennan góða árangur?

Síðastliðið ár var mjög hagfellt fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni. Þannig varð sementssalan frá Sementsverksmiðjunni tæplega 30% meiri á árinu samanborið við árið áður. Eins og kunnugt er þá er byggingariðnaðurinn á Íslandi mjög sveiflukenndur. Þannig var sementssalan um 120. 000 tonn árið 2008, en minnkaði eftir hrun niður í um 35.000 tonn í 4 ár á árunum 2010 til 2013. Vegna þessara miklu sveiflna teljum við eðlilegra að líta á meðalafkomu félagsins yfir lengra tímabil.

Myndirðu vilja sjá einhverjar breytingar á þessum markaði, t.d. hvað varðar sementskaup fyrir opinberar framkvæmdir?

Það væri mjög æskilegt ef stjórnvöld gætu hagað opinberum framkvæmdum þannig að ráðist yrði í þær þegar almennur byggingariðnaður er í lægð. Þannig gætu stjórnvöld minnkað sveiflur í iðngreininni til muna. Á undanförnum áratugum hefur það gjarnan farið saman að ráðist er í opinberar framkvæmdir samhliða góðu árferði í almennum byggingariðnaði. Þessi tilhögun hefur ýkt sveiflurnar verulega.

Núna virðast blikur á lofti varðandi ýmsar framkvæmdir, sérstaklega hvað varðar hótelbyggingar auk þess sem fáar stórar opinberar framkvæmdir eru í pípunum fyrir utan flugstöð og nýjan Landspítala, áttu von á að framundan séu samdráttartímar á þessu sviði?


Það er enn góður gangur í sementssölunni. Lokið var við byggingu stækkunar Búrfellsvirkjunar á árinu, sementsafhending til byggingar Dýrafjarðarganga haldur áfram allt árið 2019 og unnið er að fullum krafti við byggingu Marriothótelsins í miðbæ Reykjavíkur. Það er rétt metið hjá þér að það eru fáar stórar opinberar framkvæmdir í pípunum. Bygging íbúðarhúsnæðis mun halda áfram um allt land en væntanlega dregur úr byggingum hótela. Við gerum því ráð fyrir 10 – 20% samdrætti í sementssölu á næsta ári samanborið við árið í ár.

Eftir Hrun fyrir tíu árum stöðvuðust nær allar byggingaframkvæmdir misserum saman – þetta hafa væntanlega verið mjög erfiðir tímar fyrir Sementsverksmiðjuna?

Efnahagshrunið hafði gríðarlega neikvæð áhrif á byggingariðnaðinn í heild sinni. Sementssalan hrundi, viðskiptavinir urðu fyrir miklum áföllum og erlend lán hækkuðu upp úr öllu valdi við fall íslensku krónunnar. Eðlilega varð rekstur Sementsverksmiðjunnar mjög erfiður fyrstu árin eftir hrun. Framleiðsla á sementi er ferli þar sem unnið er á vöktum allan sólahringinn allt árið. Til að sementsverksmiðjur geti borið sig þarf framleiðslan að vera í gangi um 80% af heildartímanum eða um 10 mánuði á ári. Eins og áður hefur komið fram var sementssalan fyrstu árin eftir hrun um 35.000 tonn á ári sem þýddi að verksmiðjan var keyrð á 30% afköstum eða í um 4 mánuði þessi ár. Þrátt fyrir mikinn vilja til að halda framleiðslu áfram var það á árinu 2012 ekki lengur fært. Framleiðslan var því lögð af og fyrirtækinu breytt í innflutningsfyrirtæki.

Finnið þið mikið fyrir aukinni samkeppni erlendis frá seinustu ár?

Samkeppnisaðilinn hóf innflutning á sementi frá Danmörku um síðustu aldamót. Rekstrarumhverfi Sementsverksmiðjunnar hefur frá þeim tíma einkennst af mikilli samkeppni. Við fögnum að sjálfsögðu heilbrigðri samkeppni sem er til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu.

Nú er unnið að niðurrifi gömlu verksmiðjunnar og þykir mörgum sjónarsviptir af henni en öðrum ekki – það hefur væntanlega verið ákveðin eftirsjá af henni fyrir þig persónulega?

Eftir efnahagshrunið 2008 var mikill áhugi fyrir hendi að halda framleiðslu sements áfram á Akranesi. Framleiðslan var að mörgu leyti mjög jákvæð fyrir íslenskt samfélag. Framleitt var hágæða sement úr íslenskum hráefnum. Starfsemin útheimti fjölda starfa, bæði við framleiðslu og dreifingu sements ásamt öllum þeim afleiddu störfum sem til þurfti við að þjónusta starfsemina. Þá var Sementsverksmiðjan um árabil með stærstu viðskiptavinum Orkuveitunnar vegna raforkukaupa.

Bæði eigendur og starfsfólk lögðu hart að sér til að tryggja áframhaldandi rekstur. Hlutur starfsfólks var einstakur þar sem starfsmenn lögðu á sig aukna vinnu og tóku á sig launaskerðingar til að tryggja reksturinn. Fyrir það ber að þakka sérstaklega. Þannig hélst framleiðslan áfram til ársins 2012 eins og fyrr segir.

Þegar búið var að gera allt til að tryggja áframhaldandi framleiðslu og það dugði ekki til, var ekki annað að gera en að horfast í augu við breytta tíma og takast á við þá.

Hverjar sérðu fyrir þér horfurnar í rekstri? Ertu bjartsýnn á góða framtíð fyrirtækisins næstu ár og áratugi?

Sementsverksmiðjan rekur 16.000 tonna sementsbirgðastöð á Akranesi og 4.000 tonna birgðastöð á Akureyri. Við flytjum inn þrjár sementstegundir frá Norcem AS í Noregi og erum því með gott vöruúrval. Sem innflutningsfyrirtæki erum við vel í stakk búin til að takast á við verkefni framtíðarinnar og þolum nú miklu betur en áður þær sveiflur sem einkenna byggingamarkaðinn.

Í júní síðastliðnum voru sextíu ár liðin frá því að þáverandi forseti Íslands herra Ásgeir Ásgeirsson, lagði hornstein að Sementsverksmiðjunni við hátíðlega athöfn. Það er einstaklega ánægjulegt fyrir okkur á þessum tímamótum, þegar við fögnum sextíu ára afmæli félagsins, að vera „Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri“ samkvæmt skilyrðum Keldunnar og Viðskiptablaðsins.


VB MYND HAG

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar