Beint í efni

14.08.2023

Fyrsta kolefnisföngunarstöð sements í heiminum

Sementsbirgi Sementsverksmiðjunnar, norski framleiðandinn Heidelberg Materials Sement Norge AS, vinnur að byggingu nýrrar kolefnisföngunarstöðvar í Brevik í Noregi. Framkvæmdin er á áætlun bæði hvað varðar tíma og kostnað og er gert ráð fyrir að stöðin verði fullbúin og tekin í notkun á næsta ári. Afkastageta hennar verður um 400 þúsund CO2 tonn á ári, sem samsvarar u.þ.b. 50% af útblæstri verksmiðjunnar.

Kolefnisföngunarstöð
Kolefnisföngunarstöð rís í Brevik, Noregi.

Föngun, flutningur og varanleg geymsla koltvísýrings

Aðdragandinn að framkvæmdinni hefur verið umfangsmikill, en árið 2022 veitti norska Stórþingið verkefninu brautargengi undir formerkjunum „Langskip“ en því er ætlað að vera stefnumótandi hvað varðar föngun, flutning og varanlega geymslu koltvísýrings (CO2). Sementsverksmiðja Heidelberg, Materials Sement Norge í Brevik, annast þann þátt verkefnisins sem snýr að föngun kolefnis, en Northern Lights kemur til með að flytja kolefnið með skipi út í forðastöð í Øygarden og þaðan áfram með leiðslu út að olíusvæðinu Aurora í Norðursjó, þar sem koltvísýringnum er dælt niður til varðveislu í jarðlögum.

Brautryðjendastarf á heimsmælikvarða

Bygging kolefnisföngunarstöðvarinnar er umfangsmikið brautryðjendastarf sem kemur til með að skipta töluverðu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og gera sement í steinsteypuna enn vistvænna. Sett hefur verið upp vefsíða fyrir þá sem vilja fylgjast með gangi mála og fræðast frekar um verkefnið.

Sjá einnig skýringarmyndband sem sýnir aðferðarfræðina við föngun, flutning og varanlega geymslu koltvísýringsins.

Dagsetning
14.08.2023
Deila