05.11.2021
Sementsviðskipti boðin til Aalborg Portland
Reykjavík. 3. nóvember, 2021.
Sementsverksmiðjan hefur ákveðið að bjóða Aalborg Portland á Íslandi bein sementsviðskipti til að aðstoða félagið við að mæta þörfum viðskiptavina þess hér á landi í ljósi mikils skorts á sementsmarkaði. Sementsverksmiðjan telur sér fært að aðstoða með þessum hætti eftir að hafa leitað leiðbeininga hjá Samkeppniseftirlitinu.
Núverandi aðstæður á sementsmarkaði eru án fordæma en skortur er á sementi um alla Evrópu. Í ljósi þessa taldi Sementsverksmiðjan nauðsynlegt að forgangsraða því takmarkaða magni sements sem félagið hafði til umráða til að mæta samningsbundnum skuldbindingum sínum gagnvart reglubundnum viðskiptavinum. Líkt og fram hefur komið í fréttum, kvartaði Steinsteypan ehf. undan þeirri ákvörðun til Samkepniseftirlitsins. Eftirlitið tekur ekki afstöðu til þeirrar kvörtunar í samskiptum sínum við Sementsverksmiðjuna.
Sementsverksmiðjan vísar því algerlega á bug að forgangsröðun viðskipta til að mæta samningsbundnum skuldbindingum geti talist brot á samkeppnislögum. Félagið taldi ennfremur að þær kröfur sem gerðar voru til þess í kvörtun Steinsteypunnar gætu hæglega jafngilt broti á 10. grein Samkeppnislaga og væru því ekki færar. Verksmiðjan óskaði því leiðbeininga samkeppnisyfirvalda um hvernig leysa mætti úr þessari vandasömu stöðu. Þessi niðurstaða byggir á þeim leiðbeiningum og þakkar Sementsverksmiðjan Samkeppniseftirlitinu fyrir skjót viðbrögð og gott og lausnamiðað samstarf.
Skortur hefur verið á sementi í norðanverðri Evrópu frá miðju þessu ári. Sementsverksmiðjan hafði á grundvelli vandaðrar áætlunargerðar og trausts sambands við sinn birgja tryggt nægjanlegt sementsmagn til að mæta áætlaðri sölu ársins. Þær áætlanir voru gerðar undir lok síðasta árs með hliðsjón af áætlaðri notkun stærstu viðskiptavina félagsins og endurmetnar síðastliðið vor í ljósi aukinnar sölu á markaði.
Þegar vart varð skorts hjá helsta keppinauti félagsins í sementssölu hér á landi í sumar seldi Sementsverksmiðjan Steinsteypunni og fleirum sem ekki voru í föstum viðskiptum nokkurt magn sements, enda taldi félagið birgðastöðu leyfa það. Jafnframt hefur félagið frá þeim tíma leitað leiða til að flytja aukið magn sements til landsins í ljósi stöðunnar en án árangurs til þessa. Þegar sú staða kom upp aftur nú í haust taldi félagið hins vegar birgðastöðu sína ekki leyfa sömu viðbrögð.
Sementsverksmiðjan hefur fullan skilning á þeirri stöðu sem upp er komin vegna sementsskorts í heiminum. Sementsverksmiðjan hefur sem fyrr segir gert ítrekaðar tilraunir til að tryggja meira magn sements til landsins og fagnar að sjálfsögðu nýjum viðskiptum þegar afhendingar komast í eðlilegt horf. Bindur verksmiðjan vonir við að með þessum hætti megi draga úr neikvæðum áhrifum sementsskorts hér á landi fyrir íslenskan byggingamarkað.
Frekari upplýsingar veitir
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins
Sími 660-7000
