Beint í efni

02.11.2021

Úrbótaskýrsla

Eins og kunnugt er varð það óhapp í Sementsverksmiðjunni snemma morguns 5. janúar 2021 að sementssíló yfirfylltist við dælingu sements frá sementsflutningaskipinu UBC Cartagena. Óhappið hafði þær afleiðingar að sement barst yfir nágrenni og nærliggjandi byggð til norðurs.

Fyrstu viðbrögð stjórnenda Sementsverksmiðjunnar voru að ráðast í víðtækar hreinsunaraðgerðir. Kallað var eftir aðstoð með því að hringja í slökkvilið Akraness. Þekkt er að mikilvægt er að bregðast fljótt við í tilvikum sem þessum og skola sement af eigum og mannvirkjum eins fljótt og auðið er. Slökkviliðið brást vel við þessari beiðni og vann gott hreinsunarstarf daginn sem óhappið varð. Einnig ákváðu stjórnendur að semja strax um morguninn við tvö fyrirtæki sem tóku að sér að þrífa bíla sem fengu sement yfir sig. Mæltist þessi ráðstöfun vel fyrir.

Sementsverksmiðjan er tryggð fyrir óhöppum sem þessum með svokallaðri Ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar. Seinna um daginn tók því tryggingafélagið VÍS við aðgerðastjórnun og hefur sinnt henni síðan. Þekkt er að í málum sem þessum þar sem mikill fjöldi fólks verður fyrir tjóni og/eða ónæði að þá tekur það langan tíma að leysa öll mál. Samkvæmt upplýsingum frá tryggingarfélaginu hefur gengið vel að leysa úr málum lang flestra, en nokkur mál eru enn óleyst. Enn er unnið að úrlausn þeirra.

Stjórnendur Sementsverksmiðjunnar áttu fund með bæjaryfirvöldum á Akranesi fljótlega eftir óhappið. Farið var yfir atburðarás hvað olli óhappinu, viðbragða í kjölfar óhappsins og til hvaða ráðstafana yrði gripið til að tryggja að óhapp af þessu tagi endurtaki sig ekki.

Nokkrar umræður urðu í kjölfar óhappsins þar sem reynt var að meta það sementsmagn sem fór út í andrúmsloftið. Framkvæmdastjóri mat magnið beint í framhaldi af óhappinu. Síðar var verkfræðistofa fengin til að meta magnið og reyndist það vera mun meira en mat framkvæmdastjórans. Ljóst er að erfitt er að leggja mat á hversu mikið sement fór út í andrúmsloftið og munu allar niðurstöður um mat á magni verða mikilli óvissu háð. Úr því sem komið er þjónar það litlum tilgangi að eyða miklum tíma í að meta hversu mikið magn fór út í andrúmsloftið. Aðalatriðið er að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtaki sig og á það hafa stjórnendur Sementsverksmiðjunnar lagt alla áherslu. Því hefur verið ráðist í viðamiklar úrbætur:

  • Á öðrum degi eftir óhappið var kvörtun frá lögreglunni á Akranesi skráð í gæðakerfi Sementsverksmiðjunnar og í beinu framhaldi af henni var stofnað verkefni „Aukið öryggi við móttöku sements“ í verkefnishluta gæðakerfisins, en þar segir: Gera þarf ráðstafanir til að mengunaróhapp sem varð hjá Sementsverksmiðjunni 05.01.2021 geti ekki endurtekið sig.
  • Lok á mælistútum sem losnuðu við yfirfyllinguna hafa verið boltuð niður.
  • Eftirlitsmyndavélar hafa verið endurnýjaðar og þeim fjölgað. Nú eru eftirlitsmyndavélar staðsettar bæði innandyra og utandyra á þaki sementsgeymanna.
  • Sett hefur verið upp lýsing utandyra á þaki sementsgeyma þannig að myndavélar gefi skýra mynd að degi sem nóttu.
  • Svokallaðir gaffal-hæðarvakar senda viðvörun til vaktmanns þegar geymir er við að fyllast. Búið er að tvöfalda öryggi með því að setja upp svokallaða snúnings-hæðarvaka við hlið gaffal-hæðarvaka á alla sementsgeyma.
  • Rautt viðvörunarljós gefur vaktmanni til kynna þegar sementsgeymir er við að yfirfyllast. Bætt hefur verið við hljóðmerki þannig að viðvörun komist örugglega til skila til vaktmanns.
  • Hugbúnaður sem tengir skynjara við skjámyndakerfi vaktmanns hefur verið endurnýjaður og uppfærður.
  • Samskiptabúnaður milli skipverja og vaktmanns hefur verið endurnýjaður.

Auk úrbóta sem lúta að bættum tækjabúnaði hefur einnig verið ráðist í úrbætur sem lúta að bættu verklagi og viðmiðunum:

  • Viðbragðsáætlun vegna rykmengunar hefur verið endurskoðuð og yfirfarin af sérfræðingum verkfræðistofunnar EFLU.
  • Skilgreind birgðageta í sementsgeymum með tilliti til mismunandi rúmþyngdar sementstegunda hefur verið endurmetin og öryggismörk aukin.
  • Forvarnarfulltrúi frá tryggingarfélaginu til að yfirfara úrbætur er væntanlegur í heimsókn í viku 46.
  • Sementsdælu-afköst hafa verið yfirfarin og er nú búið að skilgreina max dæluafköst á Akranesi 160 tonn á klukkustund.

Eftir óhappið hefur Sementsverksmiðjan fengið verkfræðistofuna EFLU til að kanna hvort sementsryk finnist í andrúmslofti á Akranesi. Þær niðurstöður sem liggja fyrir sýna töluvert rykálag á Akranesi en einungis tíundi hluti þess á rætur að rekja til sements og/eða steyptra mannvirkja. Vitað er að mikið rykálag var á Akranesi á meðan steypt Faxabraut var brotin upp. Án efa á stærsti hluti sementsbundins ryks í sýnum upptök sín þaðan. Ekkert bendir til þess að sementsryk sé til staðar í andrúmslofti á Akranesi sem rekja megi til óhappsins.

Við greiningu á orsök óhappsins kom í ljós að mannleg mistök voru meginástæðan. Farið hefur verið yfir verkferla á öryggisfundum með það að leiðarljósi að slíkt óhapp endurtaki sig ekki. Stjórnendur Sementsverksmiðjunnar hafa harmað að atvikið hafi átt sér stað og beðið íbúa Akraness afsökunar á atvikinu. Það er ítrekað hér með. Stjórnendur hafa brugðist við atvikinu af fagmennsku með það að leiðarljósi að atvikið endurtaki sig ekki.

Sementsverksmiðjan þakkar bæjaryfirvöldum á Akranesi, Slökkviliði Akraness, íbúum á Akranesi, starfsfólki sínu og öðrum sem komið hafa að þessu óhappi með einum eða öðrum hætti fyrir skilning og gott samstarf.

Akranesi 12.11.2021
Gunnar H. Sigurðsson

Dagsetning
02.11.2021
Deila