Sölu- og afhendingarskilmálar
Sölu- og afhendingarskilmálar Sementsverksmiðjunnar | Laust og pakkað sement
1. FORSENDUR SKILMÁLA
1.1 Sementsverksmiðjan selur sement til:
1. Fyrirtækja sem nota meira en 500 tonn á ári, og sem reka steypuframleiðslustöðvar („fagaðilar“).
2. Sementseljenda sem ekki standa sjálfir að steypuframleiðslu.
3. Verktaka vegna mannvirkjagerðar.
4. Til einkaaðila í heilum brettum (960 kg) eða stórsekkjum Saman er vísað til þeirra sem „viðskiptavina“.
1.2 Ef ekki er um annað samið sérstaklega, gilda þessir sölu- og afhendingarskilmálar við reglulega endurtekin kaup, stök viðskipti, tilboðsgerð vegna sementssölu í stór verkefni sem og öllur önnur viðskipti Sementsverksmiðjunnar.
2. TILBOÐ/SAMNINGAR/VERÐ
2.1 Fagaðilar og söluaðilar, sem hafa samninga um föst viðskipti, hafa gert samkomulag um afhendingu sem gildir um regluleg endurtekin viðskipti. Í slíkum viðskiptum fer um verð, greiðsluskilmála, afhendingarstað og gæðakröfur eftir þeim samningum. Um önnur viðskipti sem og tilvik þar sem þeim samningum sleppir, fer eftir skilmálum þessum.
2.2 Verðtilboð sem byggja á sölu- og afhendingarskilmálum þessum gilda í einn mánuð, sé ekki um annað samið. Sementsverksmiðjan er verulega háð hráefniskostnaði við verðlagningu sína. Verði félagið fyrir verulegum hækkunum (yfir 10%) frá birgjum fyrir afhendingu varanna en eftir að pöntun er gerð eða verðtilboð sett fram, skal Sementsverksmiðjunni heimilt að hækka áður uppgefin verð því til samræmis. Þá er Sementsverksmiðjan ekki bundin við verðtilboð ef aðrar verulegar breytingar verða á þeim forsendum sem því lágu til grundvallar.
2.3 Allt sement sem afhent er reiknast á verði afhendingardags, sé ekki um annað samið.
2.4 Afhendingardagur skal teljast gjalddagi varanna nema samið sé um annað. Berist greiðslur ekki á gjalddaga við afhendingu varanna, eða innan greiðslufrests sé hann umsaminn, reiknast dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, auk innheimtukostnaðar. Sementsverksmiðjan á jafnframt rétt á því að hafna frekari afhendingum til viðskiptavinar, óháð því hvort þær tengist sama verkefni eða öðrum.
2.5 Viðskiptavini ber að staðgreiða öll viðskipti nema skriflegt samkomulag liggi fyrir um annað. Viðskiptavinur hefur ekki skuldajafnaðarrétt.
2.6 Sement er selt í lausu frá birgðastöðvum Sementsverksmiðjunnar. Semja má um flutning frá birgðastöð til viðskiptavinar samanber verðlista um flutningskostnað sem uppfærður er mánaðarlega. Sementsverksmiðjan sér ekki um flutning á pökkuðu sementi.
2.7 Eigin innkaupaskilmálar, almennir skilmálar eða önnur skilyrði viðskiptavinar gilda ekki um viðskiptin hvort sem Sementverksmiðjan telst meðvituð um þá eða ekki.
3. EIGINLEIKAR FRAMLEIÐSLUNNAR
3.1 Sementið er afhent í samræmi við tæknilýsingar sem samþykktar hafa verið við pöntun og skv. gildandi lögum, fyrirmælum og sérstökum staðalákvæðum.
3.2 Sement sem framleitt er í verksmiðjum Norcem í Kjøpsvik og Brevik, er eingöngu afhent með þeim eiginleikum sem gefnir eru upp í gæðaupplýsingum og vörulýsingablöðum Norcem.
3.3 Gæðaupplýsingar og vörulýsingablöð má finna á vefsíðu Norcem undir „kundesenter“ og fást einnig send ef óskað er. Finna má ofangreindar upplýsingar á íslensku á heimasíðunni www.sement.is.
3.4 Gæðaupplýsingar Norcem innihalda niðurstöður úr innra gæðaeftirliti á vörunni og sérstaklega er getið um frávik frá viðmiðunargildum.
3.5 Kvartanir er varða ófullnægjandi gæði þarf að rökstyðja með prufutöku og setja fram skriflega án órökstuddrar tafar eftir að kvörtunarefnið kom í ljós eða hefði átt að koma í ljós. Viðskiptavinur ber sönnunarbyrði fyrir því að gæðaöryggiskröfum hafi verið fylgt eftir móttöku vörunnar og áskilur Sementsverksmiðjan sér rétt til þess að hafna fram kominni kröfu ef ekki er unnt að sýna fram á það á fullnægjandi hátt.
3.6 Komi í ljós að gæði vörunnar eru ófullnægjandi skal Sementsverksmiðjan leita sanngjarnra leiða til þess að afhenda ógallaða vöru. Ný afhending getur hins vegar ráðist af birgðastöðu hjá Sementverksmiðjunni eða framleiðanda. Um afhendingu fer eftir skilmálum þessum sé ekki um annað samið. Geti Sementsverksmiðjan ekki afhent vöruna eða sambærilega vöru innan hæfilegs frests getur viðskiptavinur fengið endurgreiðslu.
4. AÐGENGI
4.1 Sementsverksmiðjan hefur sett sér það markmið að eiga alltaf nægilegt sement á lager fyrir viðskiptavini sína. Engin trygging er þó fyrir því að svo sé og getur Sementsverksmiðjan enga ábyrgð borið ef félagið á ekki nægjanlegar birgðir til að uppfylla þarfir viðskiptavinarins.
4.2 Það er skilyrði að viðskiptavinur upplýsi Sementsverksmiðjuna um áætlað reglulega keypt magn og geti þess sérstaklega ef stórinnkaup eru fyrirséð og þá með að minnsta kosti 60 daga fyrirvara.
4.3 Sementsverksmiðjan kemur á verklagsreglu gagnvart hverjum viðskiptavin varðandi pantanir og afhendingu á sementi og upplýsir viðskiptavininn um verklagið.
5. FLUTNINGAR
5.1 Sementsverksmiðjan hefur samið við flutningsaðila um flutning á lausu sementi frá birgðastöð og í síló hjá viðskiptavini, samanber verðlista um flutningskostnað sem uppfærður er mánaðarlega.
5.2 Flutningsaðilinn þarf að gangast undir kröfur um gæðaöryggi. Það felur m.a. í sér hreinsun á tönkum, viðhald og utanumhald pantana ásamt fleiru.
5.3 Sementsverksmiðjan gefur út leiðbeiningar um flutning á lausu sementi varðandi afhendingartíma, aðstæður til móttöku, umhverfisaðstæður og fleira er varðar öryggi.
5.4 Viðskiptavinur getur sjálfur samið um flutning á lausu sementi við þá sem hann kýs. Ef viðskiptavinur velur sjálfur flutningsaðilann er viðskiptavinurinn ábyrgur fyrir því að flutningsaðilinn fylgi þeim fyrirmælum sem gilda. Gerð er sú krafa að allir sem koma inn á athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar ehf., bæði á Akranesi og á Akureyri, kynni sér öryggisreglur HeidelbergCement og fari eftir þeim. Ber viðskiptavinur ábyrgð á öllum á sínum vegum á athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar, þ.m.t. verktökum og flutningsaðilum.
5.5 Viðskiptavinur ber ábyrgð á öllum skemmdum sem hann eða aðilar á hans vegum kunna að valda á athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar, þ.m.t. skaðabótaábyrgð. Þá geta skemmdir eða brot gegn öryggisreglum leitt til þess að viðskiptavini eða aðilum á hans vegum verði meinaður aðgangur að athafnasvæðinu.
5.6 Þegar viðskiptavinur sækir sement skv. lið 5.4 tekur viðskiptavinur á sig ábyrgð á flutningi og gæðum sementsins eftir að það er komið í tankbílinn. Hreinir tankar eru skilyrði fyrir því að menn fái að lesta bíla á sílóstöðvum. Áhættan af óhreinum tönkum liggur í öllum tilvikum hjá viðskiptavininum.
5.7 Viðskiptavinur ber áhættu af vörunni frá afhendingu til flutningsaðila á hans vegum. Ef varan ferst, skemmist eða rýrnar eftir afhendingu til flutningsaðila, vegna ástæðna sem Sementsverksmiðjan ber ekki ábyrgð á, skal slíkri kröfu beint til flutningsaðila. Í slíkum tilfellum mun Sementsverksmiðjan þó leita sanngjarnra leiða til að afhenda viðskiptavini nýja vöru.
6. SEINKUN
6.1 Sementsverksmiðjan ber ekki ábyrgð á seinkunum sem verða vegna tafa sem fyrirtækið getur ekki haft stjórn á og getur ekki með sanngirni talist ábyrgt fyrir eða átt möguleika á að forðast eða komast hjá afleiðingum af. Kringumstæður, sem ekki teljast á valdi Sementsverksmiðjunnar að hafa stjórn á, eru þ.m.t. en takmarkast ekki við náttúruhamfarir, faraldur eða heimsfaraldur, stríð, uppreisnir, elda, þjófnað, skemmdarverk, vinnudeilur og verkföll innanlands eða erlendis, umferðarteppur, eldsneytis- eða annar efnisskortur, þ.m.t. birgðaskortur, ásamt öllu því sem flokkast undir „force majeure“. Í slíkum tilvikum getur afhending dregist um þann tíma sem hindranir standa yfir.
6.2 Ef um er að ræða verulega seinkun sem Sementsverksmiðjan á að hafa stjórn á, á viðskiptavinurinn rétt á bótum fyrir beint tap sitt vegna seinkunarinnar. Í slíkum tilfellum þarf að tilkynna Sementsverksmiðjunni þegar í stað um bótakröfu og verður slík krafa skráð um leið. Bótaábyrgð Sementsverksmiðjunnar takmarkast við fjárhæð sem nemur þeim hluta afhendingarinnar sem seinkun varð á.
6.3 Sementsverksmiðjan mun tilkynna kaupendum sínum um seinkanir án tafar.
6.4 Ef ekki hefur verið um annað samið verður viðskiptavinur að sætta sig við frávik varðandi afhendingu sem nemur allt að sólarhring á lausu sementi af umsaminni tegund. Sé um lengra frávik að ræða takmarkast ábyrgð Sementsverksmiðjunnar við að greiða skráðan kostnað vegna annarra dreifingarúrræða sem Sementverksmiðjan hefur samþykkt áður á sementi á umsömdu verði ef viðskiptavinur getur ekki notað aðra sementstegund.
6.5 Ef um langvarandi afhendingarörðugleika er að ræða eða seinkanir sem rekja má til grófrar vanrækslu af hálfu Sementsverksmiðjunnar, þá takmarkast ábyrgð hennar við reikningsupphæð á afhendingunni sem seinkun sem varð á. Sementsverksmiðjan ber ekki ábyrgð á rekstrartapi, tekjutapi, dagsektum eða öðru óbeinu tapi nema í það megi rekja til stórkostlegs gáleysis Sementsverksmiðjunnar.
6.6 Ef seinkanir verða skuldbindur viðskiptavinurinn sig til þess að hefja þegar aðgerðir sem miða að því draga úr kostnaði vegna seinkunarinnar. Verði það ekki gert skal sú fjárhæð sem hefði leitt af takmörkun koma til frádráttar tjóninu.
6.7 Kvartanir vegna seinkunar á afhendingu skulu afhentar skriflega án tafar, eigi síðar en innan sólarhrings frá áætluðum afhendingardegi.
6.8 Séu markaðsaðstæður þannig að óvenju mikið hafi verið tekið úr sílóunum skoðast tímabundin stopp á afhendingu ekki sem seinkun, sbr. grein 4.1.
7. MÓTTAKA
7.1 Viðskiptavinur er skuldbundinn til að taka á móti vöruafhendingu á umsömdum tíma og móttökustað.
7.2 Viðskiptavinur verður að gera Sementsverksmiðjunni strax viðvart ef hann getur ekki tekið á móti umsömdu magni.
7.3 Viðskiptavinur ber ábyrgð á aukakostnaði sem hlýst af því að hann getur ekki tekið við vöruafhendingu sem samið var um, til dæmis ef biðtími verður fyrir flutningsaðilann.
8. MÓTTÖKUEFTIRLIT
8.1 Sementstegund er skráð á fylgiseðilinn. Viðskiptavinur skal kanna að afhent sementstegund sé sú sama og pöntuð var.
8.2 Ef ósamræmi er milli pöntunar og afhentrar vöru skal sementinu skilað þegar í stað og ný afhending afgreidd svo fljótt sem auðið er eftir að Sementsverksmiðjan hefur móttekið kvörtunina.
8.3 Kvörtunum þarf að koma á framfæri strax og viðskiptavinur verður var við eða hefði mátt vita um kvörtunarefnið og í síðasta lagi innan 3 daga. Allar kvartanir þarf að leggja fram skriflega. Kvartanir má senda á netfangið ludvik@sement.is. Sement sem þykir aðfinnsluvert skal ekki nota.
8.4 Ef gallinn er þess eðlis að viðskiptavinur mátti hafa vitað um hann fyrir afhendingu er ábyrgð Sementsverksmiðjunnar takmörkuð við nýja afgreiðslu.
9. ÁBYRGÐ
9.1 Ef mistök verða við afhendingu takmarkast ábyrgð Sementsverksmiðjunnar við kr. 2.000.000, -tværmilljónir króna, samanlagt, vegna tjóni á eigum viðskiptavinar, framleiðsluvörum, lausafjármunum, eða hvers konar annars tjóns viðskiptavinar.
9.2 Sementsverksmiðjan ber enga ábyrgð á hvers kyns óbeinu tjóni, s.s. rekstrartapi, tekjutapi, dagsektum eða öðru innra tapi, nema það megi rekja til stórkostlegs gáleysis Sementsverksmiðjunnar.
9.3 Viðskiptavinur skuldbindur sig til að halda Sementsverksmiðjunni skaðlausri af hvers konar tjóni sem Sementsverksmiðjan verður fyrir vegna athafna eða athafnaleysis viðskiptavinar, í samræmi við almennar skaðabótareglur.
9.4 Norcem stendur fyrir stöðugri þróun á framleiðsluvörum sínum. Sementsverksmiðjan setur fyrirvara um að breytingar kunna að verða á framleiðsluvörum með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara.
10. FORCE MAJEURE - ÓVIÐRÁÐANLEG ATVIK
10.1 Komi upp óviðráðanleg atvik („force majeure“), er hvorum samningsaðila heimilað að fresta skyldum sínum samkvæmt skilmálum þessum meðan það ástand varir. Með force majeure atvikum er almennt átt við aðstæður sem hvorugur aðila gat séð fyrir og hafa bein áhrif á efndir. Að öðru leyti fer um þetta efni eftir almennum reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga. Samningsaðili sem vill bera fyrir sig slík atvik skal tilkynna gagnaðila þar um, með sannanlegum hætti og ef gagnaðili krefst þess, að leggja fram nauðsynleg gögn um tilvist, efni og tímalengd slíkra aðstæðna. Nú varir óviðráðnlegt atvik svo lengi að forsendur bresta fyrir viðskiptunum og er þá hvorum aðila um sig heimilt að ganga frá þeim.
11. LÖG OG LÖGSAGA
11.1 Um skilmála þessa og viðskipti Sementverksmiðjunnar og viðskiptavinar gilda íslensk lög.
11.2 Úrlausn ágreiningsmála vegna skilmála þessara og viðskipti Sementverksmiðjunnar og viðskiptavinar, sem ekki tekst að leysa í sátt, skal heyra undir Héraðsdóm Vesturlands.
Endurskoðað í september 2022